Fjöldi Íslendinga kom sérstaklega til þess að vera viðstaddur frumflutninginn og alþjóðlega listasenan sýndi viðburðinum mikinn áhuga.
Titill verksins vísar í kafla í Heimsljósi Halldórs Laxness, en eins og hann gefur til kynna skipar hljóð stóran sess í verkinu. Kjartan Sveinsson semur tónlistina fyrir verkið sem er skrifað fyrir strengjasveit og kór. Davíð Þór Jónsson fer með hljómsveitarstjórn, en það eru sinfóníuhljómsveit Babelsberg og kór sem flytja tónlistina.

Það er óhætt að segja að framsetning verksins sé fremur óhefðbundin þar sem þetta er sviðsverk án leikara, byggt aðeins á leikmynd og tónlist. Upplifunin verður því nokkuð ólík þeirri að fara á leiksýningu eða tónleika.
Setið var í hverju sæti þetta opnunarkvöld og eftirvæntingin var mikil. Ef marka má dynjandi lófatak að sýningu lokinni er auðvelt að fullyrða að áhorfendur hafi verið ánægðir með flutninginn og verkið staðið fyllilega undir væntingum.

Þríeykið, þeir Ragnar, Kjartan og Davíð Þór, voru mjög ánægðir með móttökurnar, enda var þeim gríðarlega fagnað þegar þeir þökkuðu áhorfendum, hljómsveit, kór og sviðsmyndahönnuði fyrir frammistöðu kvöldsins.
Að sýningu lokinni brá Ragnar Kjartansson sér svo í gervi Rassa Prump og tók nokkur lög með félögum sínum, gestum til mikillar skemmtunar.
