Fjölskyldusöngleikurinn Horn á höfði verður sýndur í síðasta sinn í Tjarnarbíói á sunnudaginn klukkan 13.
„Nú verður hann sendur upp í himnaríki sýninganna,“ segir Víðir Guðmundsson, einn þriggja leikara í verkinu.
Víðir segir tæplega 80 sýningar að baki fyrir rúmlega sjö þúsund manns. „Sýningin er orðin ansi lífseig og margt búið að gerast í lífi leikaranna á þessum tíma, meðal annars hafa nokkur börn komið undir!“
Horn á höfði eftir Berg Þór Ingólfsson og Guðmund Brynjólfsson, með tónlist eftir Villa Naglbít, var frumsýnt í Grindavík 2009 og hlaut strax frábærar viðtökur.
Gagnrýnendur lofuðu sýninguna í hástert og hún var valin besta barnasýning ársins það ár.
