Handbolti

Hafði gott af því að flytja frá hótel mömmu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Róbert Aron í leik með ÍBV í vetur.
Róbert Aron í leik með ÍBV í vetur. fréttablaðið/daníel
„Það er ríkir mikil tilhlökkun í Eyjum en við erum líka stoltir af því að hafa komist svona langt,“ segir Róbert Aron Hostert, glaður í bragði. Þessi öfluga skytta, sem hefur oftast leikið sem leikstjórnandi á sínu fyrsta tímabili með ÍBV í vetur, á nú möguleika á því að verða Íslandsmeistari annað árið í röð. Hann var í stóru hlutverki með liði Fram sem fór alla leið í fyrra og hann ætlar sér að endurtaka leikinn með ÍBV nú.

ÍBV sló út Val í undanúrslitunum með sigri í oddaleik eftir að hafa lent 2-1 undir í rimmunni. Haukar lentu þó í enn meira basli og þurftu að koma til baka eftir að hafa lent 2-0 undir í sínu einvígi gegn erkifjendunum í FH. „Ég held að tvö bestu liðin séu komin áfram í úrslitin, enda þau tvö lið sem enduðu í tveimur efstu sætunum í deildinni,“ bendir Róbert á og segir að lið ÍBV sé að stíga upp á hárréttum tíma.

„Mér finnst stemningin í liðinu svipuð þeirri sem ríkti hjá okkur í Fram í fyrra. Við höfum vaxið jafnt og þétt sem liðsheild eftir áramót og stígandin hefur verið góð. Við erum að toppa á réttum tíma.“

Róbert hefur verið tekinn nokkuð mikið úr umferð í vetur, ekki síst í úrslitakeppninni. Hann viðurkennir að það sé nokkuð þreytandi. „Ég er orðinn vanur því enda lent nokkuð oft í því í vetur. En við eigum nokkur svör við því og getum spilað úr þeirri stöðu. Það er þó leiðinlegt að vera handboltamaður og fá ekki að spila eins og maður vill gera – því neita ég ekki.“

Róbert er á sínu síðasta tímabili hér á landi í bili þar sem hann hefur gengið frá samningi við Mors-Thy í Danmörku. Hann segist þó hafa lifað sem nokkurs konar atvinnumaður í Eyjum í vetur og hafa lært margt af því.

„Lífið í Eyjum er æðislegt og hér er gott að vera. Ég hef verið mikið einn í vetur og kynnst nýrri hlið á sjálfum mér. Ég hef þroskast og sé ekki eftir því að hafa tekið þetta skref og hætt á hótel mömmu,“ segir hann og hlær.

Róbert hrósar einnig þjálfurunum Gunnari Magnússyni og Arnari Péturssyni. „Uppgangur liðsins hefur verið mikill sem segir sitt um gæði þjálfaranna. Ég hef líka lært mikið af þeim, ekki síst þar sem ég hef verið í nýrri stöðu á miðjunni og í leiðtogahlutverki í sókninni. Öll þessi reynsla hefur gert mig fullorðnari en ég var.“

Leikur Hauka og ÍBV hefst kl. 19.45 og Róbert segir mikilvægt að hans menn sýni yfirvegun. „Sérstaklega í sókninni þar sem vörn og hraðaupphlaup eru þeirra bestu vopn. Við þurfum svo sjálfir að taka vel á móti þeim í vörninni en fyrst og fremst að hugsa um okkar leik og gera sem fæst mistök.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×