Erlent

Tugir manna liggja í valnum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Uppreisnarmenn í Donetsk styrkja varnir sínar.
Uppreisnarmenn í Donetsk styrkja varnir sínar. fréttablaðið/AP
Tugir líka voru fluttir inn í líkhús borgarinnar Donetsk í gær, eftir að harðir bardagar geisuðu þar milli stjórnarhersins og uppreisnarmanna.

Óttast var að allt að hundrað manns hefði fallið í valinn, flestir að sögn stjórnvalda úr röðum uppreisnarmanna en samkvæmt frásögn uppreisnarmanna gæti helmingur þeirra verið úr röðum almennra borgara.

Átökin hófust eftir að auðkýfingurinn Petro Porosjenkó hafði lýst yfir sigri í forsetakosningunum, sem haldnar voru á sunnudaginn.

Porosjenkó hefur sagst ætla að reyna að stilla til friðar í landinu, en hefur sjálfur líkt uppreisnarmönnum í austurhluta landsins við sómalska sjóræningja.

Tildrög átakanna virðast hafa verið þau að uppreisnarmenn hafi reynt að ná flugvellinum í Donetsk á sitt vald. Það er næststærsti flugvöllur landsins.

Síðar um daginn fullyrti stjórnarherinn að hann væri búinn að ná flugvellinum aftur úr höndum uppreisnarmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×