Nia Vardalos og John Corbett léku aðalhlutverkin í fyrri myndinni og munu koma saman aftur í framhaldsmyndinni. Framhaldsmyndin heldur áfram að fylgjast með Portokalos-fjölskyldunni sem snýr aftur þegar fjölskylduleyndarmál er afhjúpað og stærra brúðkaup sameinar fjölskylduna á ný.
Nia Vardalos skrifaði handrit fyrri myndarinnar og sest aftur í handritsskrifarastólinn fyrir framhaldsmyndina.
„Nú er ég að upplifa það að vera móðir og er tilbúin að skrifa næsta kafla í fjölskyldusögu minni. Auðvitað munu einhverjir fjölskyldumeðlimir halda því fram að ég sé blönk og hafi bara viljað kyssa John Corbett aftur. Annað af þessu tvennu er satt,“ segir Nia.
My Big Fat Greek Wedding var upprunalega einleikur sem Nia skrifaði og lék í. Það var byggt á hennar eigin fjölskyldu í Winnipeg í Kanada og byggir á því þegar hún giftist manni sem var ekki grískur.
Myndin varð óvæntur smellur og fékk tilnefningu til Óskarsverðlaunanna fyrir besta handritið.
Myndin varð tekjuhæsta rómantíska gamanmynd allra tíma og halaði inn 241,4 milljónum dollara í Norður-Ameríku, rúmum 27 milljörðum króna.