Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, telur að svar sem barst frá Alþjóðahandknattleikssambandinu, IHF, í vikunni sé ófullnægjandi.
HSÍ hafði farið fram á skýringar á ákvörðun IHF um að veita Þýskalandi þátttökurétt á HM í Katar eftir að sambandið ákvað að afturkalla keppnisrétt Eyjaálfu.
„Í raun kom ekkert nýtt fram,“ sagði Guðmundur en í fyrri yfirlýsingu HSÍ var því haldið fram að IHF hefði ekki breytt reglum fyrr en eftir að undankeppni HM lauk – ólíkt því sem alþjóðlega sambandið hefur haldið ítrekað fram.
Guðmundur segir að HSÍ hafi óskað eftir samstarfi við ÍSÍ og þá sé heldur ekki útilokað að leitað verði til dómstóla, annaðhvort innan IHF eða til íþróttadómstólsins í Lausanne.
„Þetta er stór og mikil ákvörðun fyrir okkur því það er ekki að því hlaupið að fjármagna dómsmál. Það kostar til dæmis fimm þúsund svissneska franka að þingfesta mál fyrir dómstóli IHF. Við þurfum því að íhuga vel hvaða skref við tökum næst,“ sagði Guðmundur B. Ólafsson.
