„Ég er hérna í 35 stiga hita. Þetta er alveg æðislegt, gerist ekki betra,“ segir Hafþór Júlíus Björnsson, næststerkasti maður heims.
Hann er staddur á eyjunni Barein, skammt frá Sádi-Arabíu, þar sem hann er einn af aðalgestunum á IGN-tölvuleikjahátíðinni sem fer fram á föstudag og laugardag. „Ég verð hérna í viku og verð í nokkra aukadaga til að slappa af og njóta mín.“ Á hátíðinni mun hann gefa eiginhandaráritanir, fara í viðtöl og myndatökur.
Margar dyr hafa opnast Hafþóri Júlíusi síðan hann vakti heimsathygli fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum Game of Thrones þar sem hann lék Gregor Clegane, eða „Fjallið“. „Game of Thrones kom manni ágætlega á kortið,“ segir hann.
Í síðustu viku fór hann í svipaða ferð er hann sótti ráðstefnuna Film and Comic Con í London í fyrsta sinn. „Ég skrifaði hátt í sex hundruð eiginhandaráritanir á einum degi og svo var ég í viðtölum og myndatökum.“
Spurður hvort hann muni leika áfram í Game of Thrones vill hann sem minnst um það segja. „Karakterinn minn var mjög særður í lokaþættinum [í fjórðu þáttaröð] en fólk sem hefur lesið bækurnar veit hvað gerist.“
Engar tökur á Game of Thrones eru fyrirhugaðar hér á landi það sem eftir er ársins en tökur hafa staðið yfir á Spáni að undanförnu.
