Átta íslenskir sundmenn, fimm menn og þrjár konur, eru búnir að ná lágmarki inn á HM í 25 metra laug sem að þessu sinni fer fram í Doha, höfuðborg Katar. Þetta er fyrsta stórmótið af fjórum sem Katarbúar halda á næstu árum en þar fer einnig fram HM í handbolta 2015, HM í frjálsum íþróttum 2019 og HM í fótbolta 2022.
Sundfólkið sem er á leið til Katar í næsta mánuði eru þau Eygló Ósk Gústafsdóttir (ÍBR), Hrafnhildur Lúthersdóttir (SH, University of Florida), Inga Elín Cryer (ÍBR), Daníel Hannes Pálsson (ÍBR), Davíð Hildiberg Aðalsteinsson (ÍRB, Arizona State), Kolbeinn Hrafnkelsson (SH), Kristinn Þórarinsson (ÍBR) og Kristófer Sigurðsson (ÍRB).
Þjálfarar verða þeir Jacky Pellerin og Klaus-Jurgen Ohk. Einnig fá tveir sundmenn styrk frá FINA til að fara og taka þátt í ungliðaverkefni á vegum þess í Doha á meðan á HM stendur. Það eru þau Ólafur Sigurðsson (SH) og Sunneva Dögg Friðriksdóttir (ÍRB).
HM í Katar fer fram 3. til 7. desember næstkomandi en um 900 keppendur eru með í ár.
Tíu fara til Katar í desember
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
