DNA
Yrsa Sigurðardóttir
Veröld
Yrsa Sigurðardóttir er þekkt fyrir að skapa mikla spennu og óhugnanlegt andrúmsloft í bókum sínum og upphaf nýjustu skáldsögunnar, DNA, gefur fyrirheit um að hún bregðist ekki lesendum sínum hvað það varðar í þetta sinn. Óhugnanlegt og yfirmáta ofbeldisfullt morð á að því er virðist blásaklausri konu slær tóninn fyrir spennandi og flókna sögu að hætti glæpadrottningarinnar. Fljótlega fer þó athygli lesandans að vakla og kemur þar margt til. Lögreglumaðurinn Huldar sem stýrir rannsókninni er afskaplega daufgerð persóna og samviskubit hans yfir ýmsu óviðeigandi kvennafari vekur hvorki áhuga né samúð, hann er einfaldlega bara leiðinlegur. Hin aðalpersónan úr hópi rannsóknaraðila er sálfræðingur í Barnahúsi sem heitir Freyja og er snöggtum áhugaverðari persóna, en vantar þó herslumun til þess að taka yfir hlutverk rannsóknaraðilans sem lesandinn heldur með og óttast um. Baksaga hennar og tengsl inn í undirheima ná aldrei að skipta máli í sögunni og draga fremur úr spennu en auka hana.
Þriðja aðalpersóna sögunnar er hinn utanveltu og einmana radíóamatör Karl en lengi vel er hans hlutverk í sögunni ansi óljóst og óralangar lýsingar á því hvernig radíóamatörar bera sig að við áhugamál sitt og út á hvað það gengur drepa áhuga lesandans næstum endanlega. Það er ekki fyrr en á síðustu fimmtíu síðunum sem hægt er að tala um spennu og þá er það einfaldlega of seint, lesandanum gæti ekki staðið meira á sama um þetta fólk.

Glæpasagnahöfundar eiga misjafna spretti eins og aðrir höfundar og í DNA er Yrsa einfaldlega ekki í essinu sínu en eflaust fyrirgefa hennar fjölmörgu aðdáendur henni það og bíða spenntir eftir næstu bók glæpasagnadrottningarinnar. Þeir vita sem er að hún getur betur og á eflaust eftir að sýna þeim það.
Niðurstaða: Heldur daufleg saga frá glæpasagnadrottningu Íslands en hressilegur endasprettur bjargar því sem bjargað verður.