„Björg (Hafsteinsdóttir) fékk þessa hugmynd í haust þegar við settumst niður og fórum yfir það hvernig fjáröflun vetrarins yrði. Okkur datt í hug að athuga það hvort hún væri til í að koma,“ segir Anna María Sveinsdóttir, sem var spilandi þjálfari Keflavíkurliðsins fyrir sautján árum.
„Þegar hún var hérna þá varð hún alveg heilluð af landi og þjóð. Fannst allt æðislegt, fiskurinn og allt þetta. Mamma hennar og pabbi komu og afi hennar og amma komu líka. Það kom öll fjölskyldan til hennar og þetta var mjög sérstakt fyrir erlendan leikmann og öðruvísi en við áttum að venjast,“ segir Anna María.
Jenny Boucek hefur ekki komið til Ísland allan þennan tíma en Anna María segir að þær hafi haldið sambandi við hana.
„Okkur datt því í hug að spyrja hana hvort hún hefði áhuga á því að koma, setja upp æfingabúðir og jafnvel þjálfarafundi og eitthvað svoleiðis. Hún var meira en lítið til í það,“ segir Anna María.
Leikir Jenny Boucek með Keflavík voru síðustu leikir hennar á atvinnumannaferlinum en hún meiddist um sumarið og var ekkert með Cleveland Rockers í WNBA-deildinni eins og árið áður.
Jenny Boucek fór strax út í þjálfun. Hún var aðalþjálfari WNBA-liðsins Sacramento Monarchs frá 2007 til 2009 en hefur lengst af verið aðstoðarþjálfari hjá Seattle Storm og sinnir því starfi í dag.
Jenny Boucek kom til Keflavíkur í nóvember 1997 og spilaði alls 18 leiki í öllum keppnum. Keflavík vann 16 af þessum 18 leikjum og varð bæði Íslands- og bikarmeistari. Boucek skoraði 27 stig í bikarúrslitaleiknum og var með 18,2 stig, 5 stolna bolta og 3,2 stoðsendingar að meðaltali í úrslitakeppninni.

„Við vorum að spyrja hana út í það hvort hún væri með einhverjar kröfur. Nei það var ekkert svoleiðis. Hún vildi bara vera með okkur og okkar fjölskyldum og komast síðan í ræktina einu sinni á dag. Það voru einu skilyrðin sem hún setti. Hún er enn á fullu að æfa og þegar ég talaði við hana á Skype um daginn þá var eins og hún hefði verið geymd í formalíni því það var eins og ég hefði hitt hana í gær,“ segir Anna María í léttum tón.
Anna María mælir með því að lauma námskeiðinu í jólapakkann fyrir upprennandi körfuboltakonur. „Krakkar eiga nú allt í dag þannig að okkur fannst það mjög sniðugt að geta boðið þetta sem jólagjöf. Þess vegna vorum við að auglýsa þetta svona snemma og gefum út gjafabréf fyrir þá sem vilja,“ segir Anna María.
Æfingabúðirnar verða í Keflavík 10. til 11. janúar og er hægt að skrá sig á kvennarad@keflavik.is. Jenny Boucek er yfirþjálfari búðanna og stýrir þeim ásamt fjölda valinkunnra þjálfara og leikmanna úr körfuboltahreyfingunni.