Sorrí
Prins Póló
Skakkapopp
Í þessum póstpóstmóderníska heimi þar sem fólk sem situr við sama borð er hætt að talast við nema í gegnum spjallforrit á snjallsímum er sem betur til eitthvað mótvægi, einhver andspyrnuhreyfing við andleysinu.
Einlæg andspyrnuhreyfing, andspyrnueinlægnishreyfing. Æ fleiri eru tilbúnir til að vera einlægir, kaldhæðnin er að verða úr sér gengin, nema þá að kaldhæðnin sé einlæg (það er hægt, spyrjið bara Hrafn Jónsson). Það er eitthvað í loftinu, finnið þið það ekki?
Vinsældir hljómsveitarinnar Prins Póló bera vott um uppgang einlægninnar. Því eru vinsældir hljómsveitarinnar í raun kærkomnar, þær boða betri tilveru með húmor, náungakærleik og fósturlandsást að vopni. Ekki þjóðrembingsást…heldur nostalgískri væntumþykju um landið, um þjóðina, sem við viljum tilheyra. Hvort sem það er Libby's tómatsósa í gleri, fótanuddtæki eða hakk og spaghettí í matinn. Prinsinn er meira en tónlist, Prinsinn er afstaða. Prinsinn er lífsstíll.
Þegar þetta er skrifað er ljóst að Sorrí, önnur breiðskífa sveitarinnar, er plata ársins hjá Fréttablaðinu. Eina sem hægt er að setja út á það val er að elstu lög plötunnar komu út fyrir allt að þremur árum en var í ár safnað saman á eina skífu í fyrsta sinn. Að öðru leyti er valið fullkomlega réttlætanlegt. Hún er stútfull af smellum, sem eru einstakir á sinn hátt. Þar má finna argasta danspopp í einu besta lagi Íslandssögunnar „Hamstra sjarma,“ ljúfsára ástarballöðu með synþatvisti í „Finn á mér,“ fullkomna sambandslýsingu í „Tipp Topp“ og manifestóinu „Bragðarefir“.

Niðurstaða: Prins Póló gefur út samansafn af frábærum smáskífum síðustu ára með smá aukasnakki til viðbótar. Sorrí, en Sorrí er frábær plata fyrir alla, konur og kalla.