Leikkonan Jennifer Lawrence er samkvæmt tímaritinu Forbes sá leikari ársins 2014 sem aflaði mestra miðasölutekna.
Þær kvikmyndir sem Lawrence lék í á árinu skiluðu 1,4 milljörðum Bandaríkjadala í miðasölu, Forbes telur þá tölu þó eiga eftir að hækka þar sem kvikmyndin The Hunger Games: Mockingjay er enn í sýningu.
Lawrence er einna þekktust fyrir hlutverk sitt sem Katniss Everdeen í Hungurleikamyndunum en Lawrence lék einnig í X-Men: Days of Future Past á árinu.
Á eftir Lawrence fylgdu Chris Pratt, Scarlett Johansson, Mark Wahlberg, Chris Evans og Emma Stone.
Á síðasta ári var það Dwayne „The Rock“ Johnson sem var efstur á sama lista með 1,3 milljarða Bandaríkjadala.
