Danska úrvalsdeildarliðið FC Nordsjælland hefur fest kaup á miðjumanninum Guðmundi Þórarinssyni frá Sarpsborg 08 í Noregi.
Þetta var staðfest á heimasíðu Nordsjælland í morgun en Vísir greindi frá því Guðmundur væri á leið til danska félagsins í gær.
Guðmundur, sem er 22 ára Selfyssingur, skrifaði undir þriggja og hálfs árs samning við Nordsjælland en þjálfari liðsins er landi hans, Ólafur H. Kristjánsson sem stýrði áður Fram og Breiðabliki hér á landi.
Selfyssingurinn verður því fjórði íslenski leikmaðurinn í herbúðum Nordsjælland en fyrir hjá félaginu voru Guðjón Baldvinsson, Adam Örn Arnarson og Rúnar Alex Rúnarsson.
Guðmundur hefur undanfarin tvö tímabil leikið með Sarpsborg í efstu deild í Noregi. Hann lék 59 af 60 leikjum liðsins í norsku deildinni, alla í byrjunarliði.
Þá á miðjumaðurinn tvo leiki að baki með A-landsliði Íslands auk fjölda leikja fyrir yngri landsliðin.
Guðmundur gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir Nordsjælland þegar liðið mætir IFK Gautaborg í æfingaleik í Svíþjóð í dag.
