Handbolti

Brasilía og Túnis tryggðu sér sæti í sextán liða úrslitunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/AFP
Brasilía (A-riðill) og Túnis (B-riðill) urðu í dag síðustu liðin í sínum riðlum til þess að tryggja sér sæti í sextán liða úrslitum á HM í handbolta í Katar. Túnisbúar höfðu ekki mikið fyrir sigri á Íran en það reyndi meira á Brasilíska liðið.

Um leið er ljóst að Hvíta-Rússland og Bosnía komast ekki í sextán liða úrslitin og eru þess í stað á leiðinni í Forsetabikarinn og

Brasilíumenn unnu átta marka sigur á Síle í Suður-Ameríku slag í A-riðlinum, 30-22, en með því er ljóst að Hvít-Rússar komast ekki í sextán liða úrslitin þó að þeir vinni Katar á eftir.

Sílemenn komust nokkrum sinnum þremur mörkum yfir í fyrri hálfleiknum en voru bara einu marki yfir í hálfleik, 13-12. Síle-liðið var síðast yfir í leiknum í stöðunni 19-18 þegar 19 mínútur voru eftir.

Brasilíumenn gáfu þá í og unnu síðustu 19 mínútur leiksins 12-4 og þar með leikinn með átta mörkum.

Túnis vann sjö marka sigur á Íran, 30-23, en hefði helst þurft stærri sigur til að auka líkurnar á því að taka þriðja sæti riðilsins af lærsveinum Patreks Jóhannessonar í Austurríki fari svo að austurríska liðið tapi á móti Makedóníu á eftir.

Bosníumenn áttu möguleika á að ná fjórða sætinu af Túnis en aðeins ef Túnisbúar töpuðu leiknum sínum við Íran. Það var þó aldrei líklegt enda íranska liðið langlélegasta liðið í riðlinum.

Íranar náðu reyndar að vinna upp fimm marka forskot og jafna metin í 12-12 fyrir hálfleik en Túnisbúar skoruðu sjö fyrstu mörk seinni hálfleiksins og litu ekki til baka eftir það.

Bosníumenn, sem slógu Ísland út úr umspilinu fyrir heimsmeistarakeppnina í júní í fyrra eru því á leiðinni í Forsetabikarinn þar sem þeir mæta Hvít-Rússum í fyrsta leiknum í baráttunni um 17. sæti heimsmeistaramótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×