Botnlið HK í Olís-deild karla er ekki af baki dottið.
Tveir nýir menn koma inn í liðið er deildin hefst á ný eftir HM. Veitir ekki af þar sem HK er sex stigum á eftir liðinu sem er í næstneðsta sæti deildarinnar.
Máni Gestsson er genginn í raðir HK frá ÍR. Hann er sterkur í vörn sem og á línu. Bjarki Sigurðsson, þjálfari HK, var með hann hjá ÍR á sínum tíma og þekkir vel til hans.
Þá mun Atli Karl Bachmann leika með liðinu af krafti eftir áramót en hann spilaði ekkert fyrir jól vegna anna í krefjandi námi.
Atli var markahæsti leikmaður HK á síðasta tímabili og munar því mikið fyrir HK um að fá hann aftur inn.
