Íslamska ríkið selur börn sem handsömuð voru í Írak í kynlífsánauð, eða myrðir þau. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum eru dæmi um að börn hafi verið grafin lifandi. Ungir drengir eru notaðir til sjálfsmorðsárása, til að framleiða sprengjur og til að verja stöðvar þeirra gegn loftárásum.
„Við höfum fengið fregnir af því að börn, og þá sérstaklega, þroskaskert börn, séu notuð til sjálfsmorðsárása. Líklega átta þau sig ekki á því hvað er að gerast,“ hefur Reuters fréttaveitan eftir Renate Winter. Hún stýrði rannsóknarnefnd sem skoðaði ásakanirnar og hélt blaðamannafund um niðurstöður nefndarinnar á miðvikudaginn.
„Við höfum miklar áhyggjur af pyntingum og morðum þessara barna, sérstaklega þeirra sem tilheyra minnihlutahópum,“ sagði hún. „Umfang þessa vandamáls er gríðarstórt.“
Hún nefndi að kristin börn og börn Jasída hafi orðið sérstaklega fyrir grimmd ISIS.
Samtökin hafa einnig birt myndbönd þar sem börn eru sýnd í herþjálfun. Í síðasta mánuði birti ISIS myndband þar sem ungur drengur var sýndur taka tvo menn af lífi. Sameinuðu þjóðirnar hafa heyrt af því að ungir drengir hafi einnig verið myrtir í hópum og að ISIS hafi jafnvel krossfest þá.
Þeir átján sérfræðingar sem komu að gerð skýrslu um ástandið, sögðu nauðsynlegt að yfirvöld í Írak geri allt sem þeir geta til að bjarga börnum úr haldi ISIS.
