Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa ákveðið að færa björgunarsveitir nær vígvellinum í Írak og Sýrlandi. Þeim sveitum er ætlað að fara á eftir flugmönnum sem þurfa að stökkva úr flugvélum sínum, og koma í veg fyrir að þeir lendi í höndum vígamanna.
Nýverið kom í ljós að Sameinuðu arabísku furstadæmin (SAF) hefðu hætt loftárásum gegn ISIS í desember, eftir að jórdanski flugmaðurinn Muadh al-Kasasbeh lenti í höndum ISIS. Hann var brenndur lifandi í vikunni.
SAF, sem er eitt fjögurra mið-austurlanda í bandalaginu sem gerir loftárásir gegn ISIS, sögðu að þörf væri á viðbragðsáætlunum um hvernig bjarga mætti flugmönnum sem falla í hendur vígamanna. Þá fóru þeir fram á að Bandaríkin færðu björgunarsveitir og búnað nærri Sýrlandi og Írak.
Samkvæmt AP fréttaveitunni hafa slíkar sveitir nú verið staðsettar í Norður-Írak, en áður voru þær í Kúveit.

