„Blóð Mu‘ath er blóð þjóðarinnar,“ hefur Sky News eftir föður flugmannsins. „Þjóðin þarf að hefna hans og ég kalla eftir því að enginn úr Ísmaska ríkinu verði skilin eftir lifandi. Ég kalla eftir hefnd með því að taka fanga af lífi og að samtökunum verði eytt.“
ISIS hafði áður boðist til að leysa tvö gísla samtakanna, japanska fréttamanninn Kenji Goto og Mu‘ath Al-Kassasbeh, fyrir Sajida al-Rishawi. Hún var dæmd fyrir aðild sína að hryðjuverkaárás í Jórdaníu árið 2012, þegar 60 manns létu lífið. Eiginmaður hennar sprengdi sig í loft upp á hóteli í Amman, höfuðborg Jórdaínu. al-Rishawi ætlaði einnig að sprengja sig upp en sprengjuvesti hennar virkaði ekki.

Al-Rishawi var hengd í nótt, ásamt Ziad al-Karbouli. Þau tvö voru bæði frá Írak og tengdust al-Qaeda hryðjuverkasamtökunum.
Jórdanía tekur þátt í loftárásum gegn ISIS, en Mu‘ath var fyrsti flugmaður bandalagsins gegn ISIS sem lætur lífið.
Konungur Jórdaníu, Abdullah II, hitti Barack Obama, forseta Bandaríkjanna í Hvíta húsinu í gær. Eftir fund þeirra sögðu þeir að morðið myndi einungis auka staðfestu alþjóðasamfélagsins í að brjóta ISIS á bak aftur.