Abdel-Fattah el-Sidssi, forseti Egyptalands, segir bestu leiðina til að losa Líbíu við oftækismenn sé að stofna hernaðarbandalag sem nýtur stuðnings sameinuðu þjóðanna. Þá segir hann að loftárásir Egypta gegn ISIS í Líbíu hafi verið gerðar í sjálfsvörn.
Vígamenn Íslamska ríkisins myrtu 21 kristna Egypta nýverið og birtu myndband af fjöldamorðinu á netinu. Mikil reiði er í Egyptalandi vegna málsins.
„Við munum ekki leyfa þeim að skera höfuðin af börnum okkar,“ sagði el-Sissi í viðtali hjá franskri útvarpsstöð. „Við höfum skilið Líbísku þjóðina eftir í höndum vígamanna.“
Hann sagði ISIS hafa framið stóran glæp og að loftárás gegn þeim hefði verið sjálfsvörn.
„Það sem gerðist var glæpur, ógeðfellt hryðjuverk. Að skera háls barna okkar í Líbíu.“
Egyptar gerðu minnst tvær loftárásir í Líbíu sem voru gagnrýndar af Omar al-Hassi, sem situr sem forsætisráðherra með stuðningi vígamanna. Kjörin ríkisstjórn landsins var hrakin úr Tripoli, höfuðborg Líbíu, á síðasta ári og vígahópar mynduðu eigin ríkisstjórn.
El-Sissi ræddi í gær við forseta Frakklands og Ítalíu um ástandið. Þá fór utanríkisráðherra Egyptalands til New York í gær þar sem hann mun ræða ástandið á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem hefst á morgun.

