Aníta Hinriksdóttir, hlaupakona úr ÍR, verður á meðal keppenda á sterku innanhússmóti í Birmingham laugardaginn 21. febrúar.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag, en á mótinu verður allt besta frjálsíþróttafólks Bretlands. Þar á meðal verður heims- og Ólympíumeistarinn í fimm og tíu kílómetra hlaupi, Mo Farah.
Sjá einnig:Lúxusvandamál á fundi stjórnar FRÍ á fimmtudaginn
Aníta keppir í 800 metra hlaupi og mætir þar hinni bresku Jenny Meadows sem er sú eina sem hefur hlaupið 800 metrana á undir tveimur mínútum á árinu.
Meadows hljóp á 1:59,21 mínútu í lok janúar en nýtt Íslands- og Evrópumet 19 ára yngri sem Aníta setti um helgina er 2:01,77 mínútur.
Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari Anítu, segir að hún hefði keppt á Norðurlandamótinu hefði hún ekki fengið boð á mótið í Birmingham. Þar hefði hún átt besta tímann á árinu. „Það er bara enn betra að komast á svona sterkt mót,“ segir hann.

