Andri Berg Haraldsson, fyrirliði FH og Grétar Þór Eyþórsson, hornamaður ÍBV, verða með liðum sínum í úrslitaleik Coca-Cola bikarsins í dag. Þessu greinir Morgunblaðið frá í morgun.
Báðir fengu þeir að líta rauða spjaldið í gær og hvorugur þeirra fékk leikbann. Skrifi dómarar skýrslu fara leikmenn í leikbann, en dómarar gærdagsins hafa ekki skrifað skýrslu.
Andri Berg fékk rauða spjaldið fyrir að fara aftan í Ómar Inga Magnússon, leikmann Vals, en þann leik dæmdu þeir Bjarki Bóasson og Gunnar Óli Gústafsson.
Grétar fékk reisupassann fyrir að skjóta úr víti beint í andlit Giedrius Morkunas, en dómurinn var afar umdeildur. Þann leik dæmdu þeir Gísli Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson.
