Vígamenn Íslamska ríkisins kveiktu í fjölda olíubrunna nærri borginni Tikrit, sem íraski herinn situr nú um. Vitni segja að þeir hafi kveikt í brunnunum til að skýla sér gegn árás herþyrla. Sókn hersins gegn Tikrit, fæðingarstað Saddam Hussein, er stærsta aðgerð hersins gegn ISIS síðan samtökin hertóku stóran hluta Írak í sumar.
Samkvæmt Reuters fréttaveitunni hafa brunnarnir verið stór tekjulind ISIS, þrátt fyrir að þeir hafi ekki búið yfir tæknikunnáttu til að nýta þá fyllilega. Áður en ISIS tók yfir svæðinu framleiddu brunnarnir um 2.500 tunnur af olíu á dag.
Reuters segir að útkoma umsátursins um Tikrit muni skipta sköpum fyrir áframhald sóknar hersins. Hertaka borgarinnar væri fyrsta skrefið í að ná borginni Mosul, sem er önnur stærsta borg landsins. Hún hefur verið í haldi ISIS í um sjö mánuði.
Þá hafa vopnaðar sveitir sem studdar eru af Íran tekið þátt í umsátrinu, en þeim er stýrt af írönskum hershöfðingja. Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa lýst yfir áhyggjum af því og segja Íran vera að taka yfir Írak.
