Rúmlega fimm þúsund manns hafa boðað komu sína á mótmæli í dag á Austurvelli þar sem ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið verður mótmælt. Þetta eru önnur mótmælin sem boðuð eru frá því að ákvörðun stjórnarinnar var gerð opinber.
Mótmælin hefjast klukkan tvö en í fundarboðinu á Facebook kemur fram að tónlistarmaðurinn KK muni byrja að hita upp fyrir fundinn stundarfjórðungi fyrr.
Sjá einnig: Utanríkisráðherra segir aðildarferlinu að ESB lokið
Fundarstjóri verður Sif Traustadóttir en meðal ræðumanna eru Illugi Jökulsson rithöfundur og Jórunn Frímannsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Í fundarboðinu segir einnig að ætlunin sé að senda ríkisstjórninni sterk skilaboð. „Samningur við Evrópusambandið er ákvörðun allar Íslendinga í þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki einhliða ákvörðun Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins,“ segir í boðinu.
