Hrafnhildur Lúthersdóttir setti Íslandsmet í 100 metra bringasundi þegar hún synti á 1:08,15 á Speedo móti sem fram fór í Flórída í gærkvöldi.
Hrafnhildur átti einnig gamla metið, en það sló hún í Berlín í fyrra. Þá synti hún á 1:08,19 - fjórum sekúndubrotum hægar en hún gerði í gærkvöldi í Flórída.
Hún kom fyrst í mark, en hún var rúmri sekúndu á undan Martha McCabe sem kom næst í mark. Tíminn sem Hrafnhildur synti á er sá sextándi besti í heiminum í þessum flokki sem af er árinu.
Hrafnhildur, sem syndir fyrir Gator Swim Club Florida keppir einnig í dag og á morgun á sama móti.
