Erlent

Böðlarnir eru franskir ríkisborgarar

Samúel Karl Ólason skrifar
Ungi drengurinn og maðurinn sem talið er að heiti Sabri Essid. Fyrir framan þá er Mohammed Said Ismail Musallam.
Ungi drengurinn og maðurinn sem talið er að heiti Sabri Essid. Fyrir framan þá er Mohammed Said Ismail Musallam.
Íslamska ríkið birti í gær myndband af ungum dreng taka ungan mann af lífi. Með honum var eldri maður sem talaði frönsku og hótaði gyðingum í Frakklandi áður en drengurinn gekk að fanganum og skaut hann margsinnis í höfuðið. Þeir eru báðir sagðir vera franskir ríkisborgarar.

Maðurinn sem þeir tóku af lífi hét Mohammed Said Ismail Musallam. Hann var 19 ára gamall og í myndbandinu sagðist hann hafa verið njósnari fyrir Mossad, leyniþjónustu Ísrael. Faðir hans þvertekur þó fyrir það.

AP fréttaveitan hefur eftir frönskum embættismanni að báðir séu þeir franskir ríkisborgarar. Hann segir að rannsókn standi nú yfir hvort þeir tengist manni sem réðst á skóla gyðinga í Frakklandi og hermenn árið 2012 fjölskylduböndum.

Maðurinn sem stóð við hliðina á drengnum er sagður heita Sabri Essid og er sagður vera hálfbróðir Mohamed Merah. Sá var skotinn til bana af lögreglu í Toulouse í Frakklandi. Þá hafði Merah um nokkurra daga skeið myrt þrjá hermenn á götum borgarinnar og gert árás á skóla gyðinga sem fjórir létust í, þar af þrjú börn.

Í dag eru þrjú ár frá fyrstu árás Merah.

AFP fréttaveitan segir að Essid hafi farið frá Frakklandi til Sýrlands í fyrra og gengið til liðs við ISIS. Systir Mohamed Merah fór einnig til Sýrlands og tók hún fjölskyldumeðlimi með sér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×