Mjölnismenn voru í Liverpool á dögunum þar sem þrír bardagakappar félagsins; Bjarki Ómarsson, Magnús Ingi Ingvarsson og Birgir Örn Tómasson, börðust á áhugamannabardagakvöldinu Shinobi Wars.
Bjarki var sá eini sem vann sinn bardaga, en „The Kid“ eins og hann er kallaður, er einhver alefnilegasti MMA-kappi landsins.
Mjölnismenn hafa birt myndband þar sem skyggnst er á bakvið tjöldin í ferð strákanna til Englands en þar má sjá margt fróðlegt og skemmtilegt.
Þeir voru næstum búnir að missa af fluginu því Bjarki festist í lyftu heima hjá sér þegar aðeins korter var þangað til að flugvélin átti að taka á loft.
Með í ferðinni fyrir utan þá sem kepptu voru Gunnar Nelson, faðir hans, Haraldur Dean Nelson, og Jón Viðar Arnþórsson, framkvæmdastjóri Mjölnis.
Strákarnir fóru meðal annars á Liverpool-leik og nokkrum sinnum á kjúklingastaðinn Nandos. Fróðlegt er að fylgjast með hvernig bardagakapparnir létta sig fyrir vigtunina en þar er öllum brögðum beitt.
Myndbandið má sjá í spilaranum hér að ofan.
