Liðin gerðu 1-1 jafntefli í fyrri leiknum þar sem PSG var nær sigri. Mourinho var ósáttur með meðferðina sem Eden Hazard fékk, en leikmenn franska liðsins brutu alls níu sinnum á Belganum í leiknum.
„Á þessu tímabili höfum við spilað við lið úr neðri deildunum á Englandi en grófasta liðið sem höfum mætt er PSG. Ég bjóst við betri fótbolta frá liði sem býr yfir svona miklum gæðum,“ sagði Mourinho á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Lið sem með svona frábæra leikmenn innanborðs braut af sér í sífellu. PSG stöðvaði Eden Hazard með því að brjóta á honum í tíma og ótíma.
„Þeir sóttu með 2-3 leikmönnum mjög hart að manninum sem var með boltann hjá okkur,“ bætti Mourinho við en hvort lið fékk dæmdar á sig 20 aukaspyrnur í fyrri leiknum.
Liðin mættust einnig í Meistaradeildinni í fyrra, í átta-liða úrslitunum, þar sem Chelsea fór áfram á útivallarreglunni.
PSG vann fyrri leikinn í París 3-1 en Chelsea sneri dæminu við á Brúnni og vann 2-0 sigur með mörkum frá varamönnunum André Schürrle og Demba Ba.
Leikur Chelsea og PSG hefst klukkan 19:45 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.