Ólafur Kristjánsson og lærisveinar hans í Nordsjælland máttu sætta sig við jafntefli, 2-2, gegn botnliði Silkeborg í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.
David Moberg-Karlsson kom Nordsjælland yfir strax á 4. mínútu eftir stoðsendingu frá Guðmundi Þórarinssyni. Morten Beck Andersen sá hins vegar til þess að Silkeborg fór með forystu inn í hálfleikinn en hann skoraði tvö mörk á tveimur mínútum undir lok fyrri hálfleiks.
Uffe Bech tryggði Nordsjælland stig þegar hann jafnaði metin í 2-2 á 70. mínútu. Bech hafði komið inn á sem varamaður átta mínútum áður fyrir Guðjón Baldvinsson.
Guðmundur fór af velli í hálfleik vegna meiðsla. Rúnar Alex Rúnarsson og Adam Örn Arnarson sátu allan tímann á varamannabekknum hjá Nordsjælland.
Stigið skilaði Nordsjælland upp í 4. sætið en lærisveinar Ólafs eru aðeins tveimur stigum frá 3. sætinu sem gefur þátttökurétt í Evrópudeildinni.
