Kjartan Henry Finnbogason skoraði öll þrjú mörk Horsens í sigri á Bronshoj í 1. deildinni í Danmörku í dag. Þetta var fyrsti sigur Horsens í sjö leikjum.
Bronshoj komst yfir strax á 9. mínútu en Kjartan jafnaði metin á 20. mínútu. Hann skoraði svo tvö mörk með þriggja mínútna millibili í byrjun seinni hálfleiks og tryggði Horsens stigin þrjú.
Kjartan skoraði einnig í tapi gegn Roskilde á sunnudaginn og er því kominn með fjögur mörk í síðustu tveimur leikjum Horsens.
Með sigrinum í dag komst Horsens upp í 5. sæti deildarinnar.
