Fimm Íslendingar komu við sögu í 2-0 sigri FCK á Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, en einn sat á bekknum og stýrði öðru liðinu.
Adam Örn Arnarsson og Guðmundur Þórarinsson voru í byrjunarliði Nordsjælland sem lenti undir á 40. mínútu. Ludwig Augustinsson gaf þá frábæra fyrirgjöf frá vinstri og Nicolai Jörgensen stangaði boltann í netið.
Á lokamínútu fyrri hálfleiks skoraði Jörgensen aftur. Hann skoraði þá af vítapunktinum eftir að brotið var á Thomas Delanay. 2-0 í hálfleik og urðu það lokatölur. Ólafur Kristjánsson er að sjálfsögðu þjálfari Nordsjælland.
Rúrik Gíslason kom inná sem varamaður hjá FCK á 58. mínútu og Björn Bergmann Sigurðarson á 72. mínútu. Guðmundur Þórarinsson var tekinn af velli eftir 77. mínútur, en Guðjón Baldvinsson kom inná sem varamaður hjá Nordsjælland síðustu sex mínúturnar.
FCK er í öðru sæti deildarinnar, ellefu stigum á eftir FC Midtjylland sem er á toppnum og ellefu stigum á undan Bröndby sem er í þriðja sætinu. Nordsjælland er í sjötta sæti, en einungis þrjú stig eru upp í þriðja sæti deildarinnar.
