Fyrri æfingin í Barein í dag er ekki áreiðanleg heimild um væntanlegan framgang mála um helgina. Ástæðan er sú að æfingin fer fram yfir heitasta tíma dagsins en tímatakan og keppnin fer fram þegar kólnað hefur. Þetta er fyrsta næturkeppni tímabilsins, hún hefst þegar fer að skyggja.
Brautarhitinn varð mestur 54°C. Raikkonen var tveimur tíundu á undan Vettel. Mercedes mennirnir voru greinilega að gera eitthvað annað en setja hraðan tíma. Rosberg varð 15. og Hamilton 16.
Fernando Alonso á McLaren kom sér upp í sjöunda sæti. Alosno var fljótastur á tímabili sem er í fyrsta skipti fyrir liðið í ár.

Hamilton var einum tíunda úr sekúndu á eftir Rosberg. Raikkonen og Vettel í Ferrari voru þar á eftir.
Vettel lenti í bremsubilun í beygju eitt þegar hann var að koma út af þjónustusvæðinu. Hann lenti í samstuði við Sergio Perez á Force India. Vettel fór til að biðja Perez afsökunnar strax að æfingu lokinni.
Mercedes virðist ekki hafa gríðarlegt forskot á Ferrari í Barein. Keppnishraði Ferrari er jafnvel meiri ef dæma má af æfingum dagsins.
Tímatakan á morgun og keppnin á sunnudaginn ættu því að vera afar spennandi. Bein útsending frá tímatökunni hefst á Stöð 2 Sport 3 klukkan 14:50 á morgun. Keppnin er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport frá klukkan 14:30 á sunnudaginn.
Hér fyrir neðan má sjá gagnvirkt brautarkort af brautinni í Barein.