Erlent

ISIS-liðar búnir að missa fjórðung

Atli Ísleifsson skrifar
Í byrjun apríl náði Íraksher borginni Tikrit úr höndum ISIS-liða.
Í byrjun apríl náði Íraksher borginni Tikrit úr höndum ISIS-liða. Vísir/AFP
Talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins hefur upplýst að hryðjuverkasamtökin ISIS hafi misst milli 25 og 30 prósent þess landsvæðis sem þeir hafa ráðið yfir í Írak frá því að loftárásir hófust gegn skotmörkum ISIS.

„Írakskar öryggissveitir og loftárásir bandamanna hafa án nokkurs vafa valdið ISIS skaða,“ segir talsmaðurinn Steve Warren.

Barack Obama Bandaríkjaforseti og Haider al-Abadi, forsætisráðherra Íraks, munu eiga fund í Hvíta húsinu í Washington í dag og er búist við að baráttan gegn ISIS verði ofarlega á dagskrá leiðtoganna.

Í frétt SVT kemur fram að reiknað sé með að al-Abadi muni biðja Bandaríkjastjórn um aukna hernaðarlega aðstoð.

Margir bíða þess nú að írakskar öryggissveitir hefji sókn að næststærstu borg landsins, Mosul, sem liðsmenn ISIS náðu á sitt vald í júní. Í byrjun apríl náði Íraksher borginni Tikrit úr höndum ISIS-liða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×