Flóabandalagið sleit kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífisins á fundi hjá ríkissáttasemjara í Karphúsinu í morgun. Formaður Eflingar segir allt stefna í verkfall hjá sínu fólki en um 21 þúsund manns tilheyra Flóabandalaginu.
Samninganefndir Flóabandalagsins og ríkisins hittust á fundi í Karphúsinu klukkan hálf tíu í morgun. Þau verkalýðsfélög sem tilheyra Flóabandalaginu eru Efling, Hlíf í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur. Eftir um klukkutíma langan fund í morgun ákvað samninganefnd Flóabandalagsins að slíta kjaraviðræðunum við Samtök atvinnulífsins.
„Það er þannig að við erum búin að vera hér í töluvert löngum samtölum varðandi sérkjaramálin okkar og þau voru öll saman komin í enda og hér stóð alltaf að því að ljúka því sem að snéri þá að aðalkjarasamningsmálum. Þar hefur hins vegar allt verið í hnút og hvergi þokast áfram og við metum það þannig að það verður ekkert haldið hér áfram nema þá taka til annarra ráða og þá blasir náttúrulega við að það stefnir að öllum líkindum hér í hörð átök í maímánuði,“ segir . Sigurður Bessason formaður Eflingar.
Hann segir allt stefna í að hans fólk sé á leið í verkfall eða um 21 þúsund manns.
„Við náttúrulega förum núna heim og skoðum stöðuna og metum tímasetningar í því en já það eru næstu skref hjá okkur að taka þau samtöl inn á við í okkar umhverfi. Auðvitað er það ekki þannig að verkefnið hverfi eitthvað frá okkur, við þurfum áfram að reyna að finna leiðirnar að því að ljúka hér kjarasamningum, og helst að geta gert það án átakanna vegna þess að það er síðasti valkosturinn í stöðunni en ef á þarf að halda þá er það eitthvað sem við munum grípa til já,“ segir Sigurður Bessason.

