Norska úrvalsdeildarliðið Viking vann Sandefjord, 2-1, í fimmtu umferð deildarinnar í kvöld, en Jón Daði Böðvarsson kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik og fiskaði víti sem sigurmarkið var skorað úr.
Enginn Íslendingur var í byrjunarliði norsku Víkinganna í kvöld sem er saga til næsta bæjar þar sem fjórir slíkir eru á mála hjá liðinu.
Björn Daníel Sverrisson og Indriði Sigurðsson er frá vegna meiðsla og þeir Steinþór Þorsteinsson og Jón Daði Böðvarsson byrjuðu á bekknum.
Í fyrra var Sverrir Ingi Ingason einnig í herbúðum Viking og spilaði 29 leiki sem byrjunarliðsmaður í deildinni af 30, en Jón Daði, Björn Daníel og Steinþór komu við sögu í 29 leikjum. Indriði spilaði 26 leiki.
Það hafði ekki gerst síðan 13. júlí 2013 að enginn Íslendingur var í byrjunarliði Viking í deildinni, en það tímabil var Indriði sá eini frá Íslandi á mála hjá liðinu.
Hann spilaði 29 leiki sumarið 2013 en missti af leik gegn Molde 13. júlí. Síðan þá hafa verið einn eða fleiri Íslendingar í byrjunarliði Viking í deildinni.
Íslendingar voru í heildina í byrjunarliði Viking 48 leiki í röð þar til kom að leiknum í kvöld.
