Íslenski boltinn

Blikar fá líklega hvorki Englendinginn né Belgann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnar Grétarsson er ekki vongóður um að landa Belganum og Englendingnum.
Arnar Grétarsson er ekki vongóður um að landa Belganum og Englendingnum. vísir/ernir
„Þetta gengur ekki alveg nógu vel,“ segir Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, við Vísi um samningaviðræðurnar við tvo erlenda leikmenn sem liðið var með á reynslu.

Blikar fengu belgískan framherja og öskufljótan enskan kantmann til reynslu um miðjan apríl, en Arnar hefði kosið að fá þá til liðsins til að styrkja hópinn fyrir sumar.

„Mér fannst þeir báðir flottir; annar eldfljótur og sterkur, ekkert ósvipaður Steinþóri Frey, og hinn svipaður og Jérémy Serwy hjá FH, lítill og kvikur framherji sem getur leyst allar fjórar stöðurnar fram á við,“ segir Arnar.

„Við bjuggumst við því að þetta myndi ganga eftir en nú verðum við bara að sjá hvað verður. Við erum með fínan hóp, en við hefðum kosið að bæta við okkur 1-2 leikmönnum. Ef það gerist ekki núna skoðum við gluggann aftur bara í júlí.“

Blikar hafa níu daga til að styrkja sig áður en félagaskiptaglugganum verður lokað til 15. júlí.

„Eins og staðan er núna er ég ekki bjartsýnn á að þessir tveir komi. Þetta er náttúrlega ekkert létt. En við erum að vinna í þessu. Við höfum rúma viku til stefnu,“ segir Arnar Grétarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×