Íslenski boltinn

Atli komið að 16 mörkum í síðustu átta leikjum FH

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Guðnason lagði upp bæði mörkin gegn Keflavík í 2. umferð.
Atli Guðnason lagði upp bæði mörkin gegn Keflavík í 2. umferð. vísir/ernir
FH-ingurinn Atli Guðnason lagði upp bæði mörk FH-inga í sigrinum á Keflavík á sunnudagskvöldið aðeins sex dögum eftir að hann skorað tvö mörk í 3-1 sigri á KR í fyrstu umferð Pepsi-deildarinnar.

Atli Guðnason hefur verið að skila sannkölluðum Messi-tölum í síðustu átta leikjum FH-liðsins í Pepsi-deildinni og þar virðist sjö mánaða hlé ekki hafa breytt miklu fyrir þennan þrítuga framherja eða það að þjálfarinn Heimir Guðjónsson hafi breytt um leikkerfi og spili nú 4-4-2 í stað 4-3-3 áður. 

Atli hefur komið með beinum hætti að 16 af 21 marki sem FH hefur skorað í síðustu leikjum.vísir/valli
Endaði frábærlega í fyrrasumar

Atli Guðnason fór á kostum í lokakafla Pepsi-deildarinnar í fyrra og skoraði þá sex mörk og gaf sex stoðsendingar í síðustu sex leikjum FH-liðsins. Atli varð efstur í einkunnagjöf Fréttablaðsins í Pepsi-deildinni síðasta sumar og þá munaði mikið um lokasprettinn þar sem hann var með 7,5 í meðaleinkunn í síðustu sex leikjum FH-liðsins.

Þrátt fyrir kaldan vetur hefur Atli ekki kólnað mikið niður, því hann hefur skorað tvö mörk og gefið tvær stoðsendingar í fyrstu tveimur leikjum Pepsi-deildarinnar. Atli skoraði tvö síðustu mörkin í 3-1 sigri á KR-vellinum og lagði síðan upp bæði mörk liðsins í 2-0 sigri á Keflavík í fyrsta heimaleik sumarsins.

Steven Lennon hefur notið góðs af þjónustu Atla í þessum leikjum, því síðustu fimm mörk Skotans í Pepsi-deildinni hafa öll komið eftir stoðsendingar frá Atla.

Atli launaði líka nafna sínum Atla Viðari Björnssyni stoðsendinguna frá því í fyrstu umferðinni í Vesturbænum, þegar hann lagði upp mark Atla Viðars á móti Keflavík. Atli Viðar skoraði þá sitt 99. mark í efstu deild og vantar því bara eitt til að verða fjórði meðlimur hundrað marka klúbbsins.

Atli verður væntanlega í eldlínunni þegar FH mætir Val á sunnudaginn.vísir/vilhelm
Átta plús átta í átta

Jafnvægið á milli marka og stoðsendinga er því fullkomið hjá Atla í síðustu átta Pepsi-deildar leikjum hans þar sem hann er með átta mörk og átta stoðsendingar. Í  fimm þessara leikja og báðum leikjum hans á þessum tímabili, hefur hann komið að tveimur mörkum eða fleiri.

FH-ingar hafa fullt hús og fjögur mörk í plús eftir tvo fyrstu leikina og alls 19 stig í þessum átta leikjum. Þeir hefðu hins vegar verið með fimmtán stigum færra úr þessum átta leikjum ef marka og stoðsendinga Atla hefði ekki notið við.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×