Matthías Vilhjálmsson var á skotskónum fyrir Start gegn Sarpsborg í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, en Matthías skoraði eina mark Start í leiknum.
Espen Hoff, miðjumanni Start, var vikið af velli í fyrri hálfleik, en staðan var markalaus í hálfleik. Kristoffer Tokstad kom Sarpsborg yfir á 66. mínútu.
Þremur mínútum síðar jafnaði Ísfirðingurinn metin, en það gerði hann eftir undirbúning frá Ole Martin Rindaroey. Martin Wiig skoraði svo sigurmarkið fjórum mínútum fyrir leikslok og lokatölur 2-1 sigur Sarpsborg.
Matthías spilaði allan leikinn í fremstu víglínu Start, en Ingvar Jónsson sat allan tímann á bekknum. Guðmundur Kristjánsson var ekki í leikmannahóp Start sem er í þrettánda sæti.
Elías Már Ómarsson var ónotaður varamaður hjá Vålerenga sem vann 3-0 sigur á Sandefjord í sömu deild. Vålerenga er í þriðja sæti deildarinnar.
Matthías skoraði í tapi Start
Anton Ingi Leifsson skrifar
