Íslenski boltinn

Uppbótartíminn: Múrað fyrir hjá Blikum og Tómasar í veseni | Myndbönd

Arnþór Ingi Kristinsson og Davíð Þór Viðarsson eigast við í leik Víkings og FH.
Arnþór Ingi Kristinsson og Davíð Þór Viðarsson eigast við í leik Víkings og FH. vísir/stefán
Sjöunda umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu kláraðist í gær. Hverjir áttu góðan dag og hverjir áttu erfiðan dag? Hvað segir tölfræðin og hver var umræðan á Twitter? Vísir gerir hér upp umferðina á léttum nótum.

FH-ingar eru einir á toppnum eftir sigur á Víkingi í Víkinni á meðan KR fékk skell á Vodafone-vellinum. Stjarnan tapaði sínum öðrum leik í röð og Víkingar hafa ekki unnið síðan í fyrstu umferð. Fjölnir er á miklum skriði og er í þriðja sæti þegar þriðjungur mótsins er búinn.

Umfjöllun og viðtöl eftir leiki umferðarinnar:

Víkingur - FH 0-1

Stjarnan - Fjölnir 1-3

Leiknir - Breiðablik 0-2

ÍA - Fylkir 0-0

Valur - KR 3-0

Keflavík - ÍBV 3-1

Gunnleifur er búinn að halda hreinu í 403 mínútur með sterka Blikavörnina fyrir framan sig.vísir/stefán
Góð umferð fyrir ...

... Fjölnismenn

Grafarvogspiltar gerðu sér lítið fyrir og skelltu Stjörnumönnum, 1-3, á þeirra eigin heimavelli. Fjölnismenn voru mun sterkari aðilinn í Garðabænum og verðskulduðu sigurinn sem hefði getað orðið stærri. Aron Sigurðarson fór mikinn og Ólafur Páll Snorrason var eins og kóngur í ríki sínu á miðjunni. Fjölnismenn lyftu sér upp í 3. sætið með sigrinum í gær og virðast til alls líklegir. Sérstaklega þegar Grafarvogsbúar eru loksins farnir að flykkjast á völlinn og styðja almennilega við bakið á sínu liði.

... Blikavörnina

Breiðablik hélt markinu sínu hreinu fjórða leikinn í röð þegar þeir grænklæddu unnu Leikni í Breiðholtinu í gær, 0-2. Gunnleifur Gunnleifsson hefur ekki þurft að hirða boltann úr marki sínu í 401 mínútu sem er félagsmet hjá Breiðabliki. Gunnleifur á einnig sambærileg met hjá KR (636 mín.) og HK (184 mín.) í efstu deild. Blikar eru taplausir eftir sjö fyrstu umferðirnar og eru aðeins einu stigi á eftir toppliði FH. Vörn vinnur titla segja þeir.

... Þorstein Magnússon

Formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur má vera ánægður með uppskeru gærdagsins en Suðurnesjamenn unnu þá Eyjamenn, 1-3, en þetta var fyrsti sigur þeirra í sumar. Þorsteinn og stjórn Keflavíkur sögðu Kristjáni Guðmundssyni upp störfum á fimmtudaginn og réðu Hauk Inga Guðnason og Jóhann B. Guðmundsson í hans stað. Nýju þjálfararnir, sem eru báðir heimamenn, fóru vel af stað og virðast hafa blásið nýju lífi í Keflavíkurliðið en var aðeins með eitt stig í deildinni fyrir gærdaginn.



Ekkert gengur hjá Óla Þórðar og hans mönnum.vísir/stefán
Erfið umferð fyrir ...

... Rúnar Pál Sigmundsson

Stjörnumenn eru í vandræðum. Þeir steinlágu fyrir sprækum Fjölnismönnum í gær en þetta var annað tap Íslandsmeistaranna í röð. Þeir eru án sigurs síðan í 2. umferð og eru komnir niður í 7. sæti deildarinnar. Í viðtali eftir leikinn lét Rúnar Páll sína menn heyra það all hressilega og það virðist vera kominn skjálfti í herbúðum Garðbæinga. Rúnar hefur verið iðinn við að breyta liði sínu milli leikja og virðist ekki enn hafa fundið réttu blönduna. Stjörnumenn eru að missa af lestinni í toppbaráttunni.

... Rasmus Christiansen

Danski miðvörðurinn, sem sló í gegn með ÍBV fyrir nokkrum árum, átti erfiðan dag á Vodafone-vellinum í gær. Rasmus gerði sig sekan um slæm mistök strax á 6. mínútu þegar hann braut klaufalega á landa sínum, Patrick Pedersen, innan vítateigs. Pedersen skoraði sjálfur úr vítinu og hann bætti öðru marki við á 52. mínútu en skömmu eftir annað markið var Rasmusi skipt af velli. Hann fékk aðeins þrjá í einkunn hjá Fréttablaðinu og Vísi fyrir frammistöðu sína í gær og hefur ekki alveg fundið sig í upphafi móts. Rasmus gerði t.a.m. einnig slæm mistök sem kostuðu mark gegn Fylki í 4. umferð.

... Tómasana í Víkingi

Víkingur tapaði þriðja leiknum í röð þegar FH kom í heimsókn í Víkina í gær. Aðeins eitt mark var skorað í leiknum en það gerði Bjarni Þór Viðarsson með skalla á 51. mínútu eftir fyrirgjöf frænda síns, Jóns Ragnars Jónssonar. Varnarleikur Víkinga var ekki til útflutnings í markinu en Tómas Guðmundsson, hægri bakvörður heimamanna, lyftist varla frá jörðu þegar hann reyndi að skalla boltann frá. Bjarni var fyrstur á boltann og skallaði hann til þess að gera beint á Thomas Nielsen í marki Víkinga. Daninn missti boltann hins vegar klaufalega undir sig og staðan orðin 0-1. Markverðir Víkinga hafa gert hverja gloríuna á fætur annarri í sumar og sú ákvörðun að láta Ingvar Þór Kale fara frá félaginu verður alltaf óskiljanlegri.



Valsmenn fögnuðu flottum sigri á KR.vísir/stefán
Tölfræði og sagan:

*Hörður Sveinsson skoraði líka fyrsta markið fyrir nýjan þjálfara þegar Keflvíkingar skiptu síðast um þjálfara á miðju tímabili sumarið 2013.

*Eyjamenn hafa tapað öllum fjórum útileikjum sínum í Pepsi-deildinni í sumar og markatalan er -7 (1-8).

*Eyjamenn hafa tapað fimm síðustu útileikjum sínum í Pepsi-deildinni eftir heimasigur í leiknum á undan.

*Lið Ólafs Jóhannessonar hafa unnið síðustu sjö leiki sína á móti KR í efstu deild með markatölunni 18-1.

*KR-ingar voru fyrir leikinn búnir að taka með sér 2,7 stig að meðaltali úr síðustu sjö leikjum sínum á Vodafonevellinum.

*Stærsta tap KR-inga í Pepsi-deildinni síðan á móti Breiðabliki 19. september 2013.

*Gunnleifur Gunnleifsson setti nýtt félagsmet með því að halda Blikamarkinu hreinu í fjórða deildarleiknum í röð.

*Gunnleifur á nú félagmetið hjá Breiðabliki (401 mínúta), KR (636) og HK (184 mín.) í efstu deild.

*Blikar unnu síðast fjóra deildarleiki í röð sumarið 2010 þegar þeir urðu meistarar.

*Stjörnumenn töpuðu síðast tveimur deildarleikjum í röð í ágústbyrjun 2012.

*Liðin sem töpuðu heimaleik á móti Fjölni í fyrra (Fram og Þór) féllu bæði úr deildinni.

*Mark Charles Magee var fyrir leikinn á móti Stjörnunni aðeins búinn að skora eitt mark á fyrstu 574 mínútum sínum í Pepsi-deildinni.

*Skagaliðið hefur ekki skorað í 281 mínútu í Pepsi-deildinni sem er lengsta bið eftir marki frá 2000. Hjörtur Hjartarson endaði 356 mínútna bið eftir marki með sigurmarki á móti Stjörnunni sumarið 2000.

*Víkingar féllu úr deildinni þegar þeim tókst síðast ekki að vinna í sex deildarleikjum í röð.

*FH tapaði síðast á móti Víkingi í Fossvoginum 25. maí 1990 þegar Logi Ólafsson þjálfaði Víkingsliðið.

Fjölnismenn eru á skriði.vísir/vilhelm
Skemmtilegir punktar úr Boltavaktinni:

Eiríkur Stefán Ásgeirsson á Leiknisvellinum:

„Blikar eru búnir að flagga á Leiknisvelli! Þeir tóku niður einn Leiknisfánann af stönginni sem er við svæðið þar sem stuðningsmenn Blika og settu sinn í staðinn. Nokkuð skondið en varla mikil kurteisi.“

Tómas Þór Þórðarson á Vodafone-vellinum:

„Eini KR-ingurinn úti á vellinum núna er Gummi Ben. Hann er að pikka eitthvað á símann sinn. Stuðullinn á eitthvað fyndið tíst er ekki mjög hár.“

Hæstu og lægstu einkunnir umferðarinnar:

Ólafur Páll Snorrason, Fjölni - 8

Bergsveinn Ólafsson, Fjölni - 8

Aron Sigurðarson, Fjölni - 8

Mark Magee, Fjölni - 8

Oliver Sigurjónsson, Breiðabliki - 8

Höskuldur Gunnlaugsson, Breiðabliki - 8

Ingvar Þór Kale, Val - 8

Thomas Christiensen, Val - 8

Patrick Pedersen, Val - 8

Sigurbergur Elísson, Keflavík - 8

Heiðar Ægisson, Stjörnunni - 3

Brynjar Gauti Guðjónsson, Stjörnunni - 3

Atli Jóhannsson, Stjörnunni - 3

Ólafur Karl Finsen, Stjörnunni - 3

Veigar Páll Gunnarsson, Stjörnunni - 3

Arsenij Buinickij, ÍA - 3

Rasmus Christiansen, KR - 3

Jón Ingason, ÍBV - 3

Umræðan á #pepsi365

Flottasta mark 7. umferðar: Atvik 7. umferðar: Markasyrpa 7. umferðar:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×