Viðskipti erlent

Ræsti Drekasvæðið, stofnar nú olíufélag

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ola Borten Moe, þáverandi olíumálaráðherra Noregs, fylgist með Steingrími J. Sigfússyni, þáverandi atvinnuvegaráðherra, benda á Íslandskortið þegar fyrstu sérleyfunum á Drekasvæðið var úthlutað í janúar 2013.
Ola Borten Moe, þáverandi olíumálaráðherra Noregs, fylgist með Steingrími J. Sigfússyni, þáverandi atvinnuvegaráðherra, benda á Íslandskortið þegar fyrstu sérleyfunum á Drekasvæðið var úthlutað í janúar 2013. Vísir/Valli

Fyrrverandi olíumálaráðherra Noregs, Ola Borten Moe, sem ásamt Steingrími J. Sigfússyni, þáverandi atvinnumálaráðherra, gangsetti olíuleitina á Drekasvæðinu, hefur nú sjálfur stofnað olíufélag um vinnslu olíulinda. Höfuðstöðvar félagsins, sem ber heitið OKEA, verða í Þrándheimi og er stofnfé yfir einn milljarður norskra króna. Helsti samstarfsfélagi Ola Bortens er fyrrverandi forstjóri olíufélagsins Det norske, Erik Haugane, en einnig stendur alþjóðlegt fjárfestingarfélag að nýja félaginu.

Ola Borten og aðrir eigendur eru sannfærðir um að tækifæri séu fyrir nýtt olíufélag, þrátt fyrir samdrátt í greininni og verðhrun á olíu. Félagið hyggst sérhæfa sig í uppbyggingu lítilla olíusvæða, sem stærri olíufélög hafa ekki talið svara kostnaði að nýta. Þar telja þeir vera vannýtt tækifæri í svæðum sem geyma jafnvel 50 til 100 milljónir tunna af olíu.

Ola Borten Moe verður verkefnisstjóri olíufélagsins og hyggst jafnframt halda áfram þátttöku í stjórnmálum. Hann er varaformaður Miðflokksins, bændaflokks Noregs, og barnabarn Per Bortens, sem var forsætisráðherra Noregs á árunum 1965-1971, þegar olíuævintýrið hófst. Í viðtölum við norska fjölmiðla segir hann að stjórnmálastörf geti farið vel saman við það að eiga og leiða olíufélag.

„Í okkar flokki erum við mjög ánægð með að fólk starti sjálft einhverju nýju og hefji rekstur. Þetta mun ekki hafa nein áhrif á minn stjórnmálaferil,“ segir Ola Borten.

Hann telur ekki hættu á hagsmunaárekstrum og vísar til þess olíuiðnaðurinn starfi innan ramma sem norsk stjórnvöld setji. Kerfið sé mjög gagnsætt, gerðar séu ákveðnar kröfur sem þeirra olíufélag þurfi að uppfylla eins og önnur.

„Þessutan er norska landgrunninu stýrt af Olíustofnuninni og ráðuneytinu og þar hef ég ekkert hlutverk,“ segir ráðherrann fyrrverandi. 

Heimsókn Ola Bortens til Íslands í ársbyrjun 2013 vakti athygli norskra fjölmiðla sem birtu myndir af honum að skála við íslenska ráðamenn fyrir stórum olíufundi á Drekasvæðinu. Þar kom fram að þátttaka Norðmanna byggðist á þeirri eigin mati á því að rannsóknargögn gæfu góðar vonir um að þar væri að finna miklar olíulindir.


Tengdar fréttir

Drekaleyfin tvö talin marka skýr kaflaskil

Orkustofnun gaf í gær út tvö leyfi til rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á Drekasvæðinu við Jan Mayen. Þetta eru fyrstu leyfin af þessari gerð og marka tímamót að mati atvinnuvegaráðherra. Norsk stjórnvöld taka þátt í verkefnunum.

Olíumálaráðherrann væntanlegur til landsins síðdegis

Olíumálaráðherra Noregs, Ola Borten Moe, er væntanlegur til Íslands síðdegis til að vera við athöfn í Ráðherrabústaðnum á morgun, þegar tvö fyrstu olíusérleyfin á Drekasvæðinu verða undirrituð.

Er það von um "elefant" sem lokkar á Drekann?

Olíumálaráðherra Noregs, Ola Borten Moe, er í viðtali við Aftenbladet í Stavanger spurður um hvort hann telji að "elefant“ sé á Drekasvæðinu. Hugtakið "elefant“, eða fíll, er það sem norski olíugeirinn notar um risalindir, eftir stærsta landdýri jarðar, en það eru olíusvæði eins og Ekofisk, Statfjord, Troll, Gullfaks og Mjallhvít. Hugtakið "flóðhestur“ er svo notað um lindir af næstu stærð þar fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×