Örebro og Helsingborgs skildu jöfn, 0-0, í Íslendingaslag í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.
Eiður Aron Sigurbjörnsson lék allan leikinn fyrir Örebro og sömu sögu var að segja af Guðlaugi Victori Pálssyni hjá Helsingborgs. Hjörtur Logi Valgarðsson kom inn á sem varamaður í uppbótartíma í liði Örebro.
Haukur Heiðar Hauksson var í byrjunarliði AIK sem vann 4-3 sigur á Falkenbergs í miklum markaleik. Haukur fór af velli á 77. mínútu.
Rúnar Már Sigurjónsson, sem var í dag valinn í íslenska landsliðið fyrir leikinn gegn Tékklandi í undankeppni EM 2016, og Jón Guðni Fjóluson léku allan leikinn fyrir Sundsvall sem tapaði 1-0 fyrir Halmstads á útivelli.
Þá sat Gunnar Heiðar Þorvaldsson allan tímann á varamannabekk Häcken sem gerði 1-1 jafntefli við Åtvidabergs á útivelli.
