Knattspyrnumarkvörðurinn Ögmundur Kristinsson skrifaði í dag undir þriggja ára samning við sænska úrvalsdeildarfélagið Hammarby.
Frá þessu er greint á heimasíðu Hammarby, en Ögmundur stóðst læknisskoðun og verður löglegur með sænska liðinu þegar félagaskipaglugginn opnar 15. júlí.
Hammarby er að missa aðalmarkvörðinn sinn Johannes Hopf til Genclerbirligi í Tyrklandi og því opnast tækifæri fyrir Ögmund.
Þessi 25 ára gamli markvörður hefur verið á mála hjá Randers í Danmörku undanfarið ár þar sem hann hefur setið meira og minna á bekknum.
Hann er uppalinn hjá Fram og var einn af bestu markvörðum Pepsi-deildinnar þegar hann yfirgaf Ísland á miðju tímabili í fyrra.
Ögmundur hefur verið fastamaður í landsliðshópnum undanfarin misseri og verður væntanlega í hópnum fyrir leikinn gegn Tékkum sem verður tilkynntur á morgun.
Ögmundur samdi við Hammarby til þriggja ára
Tómas Þór Þórðarson skrifar
