Ótrúleg tilþrif sáust í úrslitaleik opna bandaríska meistaramótsins í badminton um helgina þar sem Daninn Hans-Kristian Vittinghus mætti Malasíumanninum Lee Chong Wei.
Daninn var 20-19 undir í fyrstu lotu og þurfti að ná í stig til að tryggja sér upphækkun og það gerði hann með hreint lygilegu skoti.
Vittinghus sló boltann á milli fóta sér frá eigin endalínu og yfir Malasíumanninn sem þurfti að horfa á eftir honum lenda í gólfinu hjá sér.
Þetta kom þó ekki að sök fyrir Chong Wei sem vann lotuna, 22-20, og tryggði sér titilinn með öruggum 21-12 sigri í annarri lotu.
En tilþrifin eru það sem skiptir máli og þau má sjá hér að ofan.

