Þróttur tapaði sínum fyrsta leik í 1. deild karla í fótbolta í kvöld, en liðið var fyrir leikinn búið að vinna fyrstu sex leiki sína í deildinni.
Fram var liðið sem stöðvaði sigurgöngu Þróttara, en Gunnar Helgi Steindórsson tryggði Safamýrarpiltum sigurinn með marki á 9. mínútu.
Þetta er í raun annar leikurinn í röð sem Þróttur tapar, en lærisveinar Greggs Ryders lágu í valnum gegn ÍBV í bikarnum í síðustu viku.
Þróttur er eftir sem áður á toppnum með 18 stig eftir sjö umferðir, tveimur stigum á undan Ólsurum.
Fram lyfti sér upp í áttunda sætið þar sem liðið er með sjö stig.
