„Við höfum náttúrulega vitað um þessa elstu byggð í Reykjavík þar sem Aðalstrætið er,“ segir Lísabet, en þær bæjarrústir komu í ljós við uppgröft á áttunda áratugnum. „Við töldum okkur vita að aðalbyggðakjarninn hafi verið á því svæði, en okkur bara datt ekki í hug að það væri eitthvað þarna við Lækjargötuna. Og það var eiginlega það sem var svolítið skemmtilegt.“

„Þegar við vorum búin að klára að grafa þær byggingar upp, þá var náttúrulega slatti eftir,“ segir Lísabet. „Það var með svona ofsalega flottu landnámstorfi í veggjum, þannig að það virtist vera frekar gamalt. Við erum náttúrulega ekki komin með aldurinn á hreint ennþá,en það kemur bara þegar við förum í úrvinnsluna.“
Lísabet segist búast við því að uppgröfturinn muni standa yfir í um tvær til þrjár vikur til viðbótar. Hún telur ekki líkur á að áform um hótelbyggingu raskist nokkuð vegna fundarins en segir viðræður þegar hafnar við framkvæmdaraðila um varðveislu grjóts, hellna og varðeldar úr skálanum.
„Þeir vilja nýta þessar minjar og gera þeim skil, sem er bara mjög gott,“ segir Lísabet. „Þetta verður ekki varðveitt á staðnum eins og við Aðalstræti en það verður eitthvað þarna sem vísar í minjarnar á þessum stað. Sem mér finnst mjög mikilvægt.“
