„Það er sérstakt að ná ráspól á heimavelli. Við vorum að fínstilla bílinn alla tímatökuna sem gerði hvern hring að smá ævintýri,“ sagði Hamilton.
„Gaman að sjá alla þessa áhorfendur. Lewis var örlítið fljótari en ég sem er pirrandi en hann ók vel. Það gerðist eitthvað skrýtið í seinni tilrauninni í þriðju lotu það bætti sig enginn held ég nema Felipe,“ sagði Nico Rosberg eftir tímatökuna, hann ræsir annar.
„Gaman að sjá báða bíla á undan Ferrari, vonandi náum við að enda keppnina á morgun með báða bílana á undan þeim líka,“ sagði Felipe Massa eftir tímatökuna, hann ræsir þriðji.
„Við vorum alveg á mörkunum og hittum rétt á brautarmörkin. Enginn af okkar hringjum var dæmdur ólögmætur ekki svo þetta gekk vel,“ sagði Rob Smedley frammistöðustjóri Williams.

„Ég lenti næstum aftan á Felipe (Massa) þegar Nico (Rosberg) var að aka hægt fyrir framan okkur en það er engum um að kenna ég var á undirbúningshring,“ sagði Vettel á Ferrari sem ræsir sjötti á morgun.
„Jafnvægið í bílnum var skrýtið í vindinum. Morgundagurinn er sá sem skiptir máli. Við höfum yfirhöndina í baráttunni við Ferrari sem er gott,“ sagði Valtteri Bottas á Williams sem ræsir fjórði.
„Afturendinn á bílnum var griplaus, ég var hálfri sekúndu hægari í tímatökunni en á æfingunni í morgun sem er afar skrýtið,“ sagði Max Verstappen sem ræsir 13. á morgun.
„Þetta er það sem við bjuggumst við, við erum nokkuð sáttir, B-bíllinn okkar er að virka vel. Við þurfum að halda áfram að vinna hörðum höndum að þvi að ná framförum,“ sagði Nico Hulkenberg sem ræsir níundi á morgun á nýja Force India bílnum.
Einungis í þremur af síðustu 17 keppnum á Silverstone hefur ökumaðurinn á ráspól unnið keppnina. Það er því ástæða til að hlakka til keppninnar á morgun. Það getur ýmislegt gerst.
Keppnin verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Útsendingin hefst klukkan 11:30 á morgun.
Hér fyrir neðan má sjá gagnvirkt brautarkort með öllum helstu tímum helgarinnar.