Theódór Elmar Bjarnason lék allan leikinn fyrir AGF í dönsku úrvalsdeildinni í dag er liðið tók á móti Bröndby í fyrstu umferð keppninnar. Elmar lét sér það ekki nægja því hann lagði upp sigurmark liðsins.
Georgíumaðurinn Mate Vatsadze kom AGF yfir á áttundu mínútu en Finninn Teemu Pukki jafnaði metin fyrir Bröndby fyrir hálfleik. Í þeim síðari skoraði Vatsadze aftur en í þetta sinn var það Elmar sem lagði markið upp fyrir hann.
Þetta var fyrsti leikur Elmars fyrir liðið en fyrir tímabilið gekk hann í raðir þess frá Randers sem einnig leikur í Danmörku.
