Kári Árnason lék sinn fyrsta leik með Malmö þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Örebro á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.
Örebro komst yfir með marki Daniels Nordmark á 54. mínútu en 13 mínútum síðar jafnaði Markus Rosenberg metin og þar við sat.
Kári og félagar eru í 6. sæti deildarinnar en Örebro, sem hefur gert fimm jafntefli í síðustu sex leikjum sínum, er enn í 15. og næstneðsta sæti deildarinnar
Eiður Aron Sigurbjörnsson lék allan leikinn fyrir Örebro en Hjörtur Logi Valgarðsson sat allan tímann á varamannabekknum.
Þá gerðu Sundsvall og Halmstads markalaust jafntefli.
Rúnar Már Sigurjónsson og Jón Guðni Fjóluson voru báðir í byrjunarliði Sundsvall og léku allan leikinn.
Sundsvall er í 13. sæti deildarinnar, einu stigi fyrir ofan fallsæti.
Jafntefli í fyrsta leik Kára með Malmö
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
