Vigdís Jónsdóttir komst ekki í úrslit í sleggjukasti á Evrópumeistaramóti nítján ára og yngri sem nú stendur yfir í Eskilstuna í Svíþjóð.
Vigdís kastaði lengst 54,09 m en hún hafnaði í 26. sæti af 33 keppendum. Fyrir mótið var hún skráð með 27. besta árangur allra keppenda en Íslandsmet hennar í greininni er 58,43 m.
Lengsta kast Vigdísar kom í fyrstu umferð en hún kastaði 52,93 m í annarri tilraun og 52,52 m í þeirri þriðju.
Í gær féll Hilmar Örn Jónsson úr leik í sleggjukasti karla eftir þrjár ógildar tilraunir í undankeppninni.
Aníta Hinriksdóttir keppir í úrslitum 800 m hlaups á morgun og Tristan Freyr Jónsson í tugþraut á laugardag og sunnudag.
