Ingvar Jónsson hefur verið lánaður til norska B-deildarfélagsins Sandnes Ulf frá Start til loka tímabilsins.
Sandnes Ulf fær því nýjan markvörð til félagsins í stað Hannesar Þórs Halldórssonar sem gekk nýverið í raðir hollenska félagsins NEC Nijmegen.
Fram kemur á heimasíðu Sandnes Ulf að þetta sé samkomulag sem bæði félög hagnast á enda hefur Ingvar, sem kom frá Stjörnunni fyrir tímabilið í Noregi, lítið fengið að spila með Start í norsku úrvalsdeildinni.
Ingvar var valinn leikmaður ársins í Pepsi-deild karla á síðustu leiktíð og er að berjast fyrir sæti sínu í íslenska landsliðinu.
