Matthías Vilhjálmsson er nú að íhuga hvort hann eigi að taka tilboði frá rússneska úrvalsdeildarfélaginu Ufa. Þetta kom fram á mbl.is.
Matthías leikur með Start í Noregi sem hefur samþykkt tilboð Ufa í framherjann öfluga frá Ísafirði. Keppni hefst í rússnesku deildinni á fimmtudag og segir Matthías að forráðamenn Ufa vilji fá svar frá honum sem allra fyrst.
„Ég þarf að vega kostina og gallana. Þeir eru margir í báðar áttir. Því er ekki að neita að rússneska deildin er mjög spennandi og þetta yrði gott skref fjárhagslega fyrir mig,“ sagði Matthías sem hefur verið í herbúðum Start síðan 2012.
„En þetta veltur auðvitað á fjölskyldunni. Ég á hús í Kristiansand og okkur líður vel þar,“ segir Matthías og bætir við að það séu helmingslíkur á að hann taki tilboði Rússanna.

